Fernando Alonso
Fernando Alonso Díaz (f. 29. júlí, 1981) er spænskur ökumaður sem keppir í Formúlu 1 með Aston Martin. Alonso hefur tvisvar sinnum unnið heimsmeistartitillinn í Formúlu 1 á árunum 2005 og 2006 með Renault liðinu. Á ferli sínum í Formúlu 1 hefur Alonso hefur unnið 32 keppnir, náð 22 ráspólum, 26 hröðustu hringjum og staðið 106 sinnum á verðlaunapalli. Árið 2018 hætti Alonso í Formúlu 1 og fór að keppa í þolakstri. Hann vann FIA World Endurance Championship (WEC) og 24 tíma Le Mans kappaksturinn á árunum 2018 og 2019.[1] Árið 2021 kom hann aftur í Formúlu 1 með Alpine liðinu. Yngri ferillinnFernando Alonso var aðeins 3 ára gamall þegar hann byrjaði að æfa go-kart. Faðir hans José Luis Alonso bjó til litlar go-kart brautir fyrir son sinn sem hann gat æft sig á. Þegar Fernando Alonso var 8 ára gamall var hann byrjaður að vinna keppnir nálægt heimaborg sinni Oviedo og þegar leið á fór hann einnig að keppa á héraðsmeistaramótaröðum á Spáni. Alonso var 10 ára þegar vann hann héraðsmeistaramótaröðina í go-kart í Asturias héraðinu.[2] Uppgangur Alonso hélt áfram í go-kart, fjögur ár í röð varð hann spænskur unglingameistari í go-kart(Spanish Junior Karting Championship) frá árinu 1993 til 1996. Árið 1996 var stórt ár fyrir Alonso því hann varð einnig heimsmeistari í go-kart(World Karting Championship).[3] Árið 2000 fékk Fernando Alonso sæti í Formúlu 3000 með belgíska liðinu Team Astromega. Keppt var á 10 brautum víðsvegar um Evrópu og Alonso endaði mótaröðina í 4.sæti með 17 stig og vann eina keppni sem haldinn var á Spa í Belgíu.[4] Formúla 1Minardi(2001)Fernando Alonso fékk sæti hjá Minardi liðinu í Formúlu 1 fyrir tímabilið 2001. Alonso hafði verið prófunarökumaður hjá liðinu árinu á undan. Paul Stoddart var búinn að kaupa Minardi liðið og hann sagði skemmtilega sögu þegar Alonso hjálpaði verkfræðingum liðsins að byggja bílinn fyrir fyrsta kappakstur tímabilsins í Ástralíu.[5] Talið var að Minardi liðið yrði eitt af hægustu liðum tímabilsins. Liðsfélagi Alonso í Minardi var Tarso Marques. Alonso endaði í 12. sæti í Ástralíu sem var vonum framan meðan Marques þurfti að hætta keppni vegna hleðslu vandamála. Alonso varð þrettándi í Malasíu en þurfti að hætta keppni í fimm af næstu sex keppnum. Alonso kláraði þó næstu fjórar keppnir eftir það og náði sínum besta árangri á tímabilinu í þýska kappakstrinum þegar hann endaði tíundi. Þá kláraði hann ekki keppni í Ungverjalandi og hóf ekki keppni í Belgíu vegna gírkassa vandamála. Alonso varð í þrettándi á Ítalíu og varð kominn með nýjan liðsfélaga í síðustu þremur keppnunum þar sem Marques var látinn fara frá Minardi og Alex Yoong tók sætið hans. Alonso kláraði ekki í Bandaríkjunum og í síðustu keppni tímabilsins í Japan byrjaði Alonso átjándi en náði að vinna sig upp í 11. sætið. Alonso fékk ekkert stig fyrir tímabilið en fjölmiðillinn Atlas F1 mat hann sem sjötta besta ökumann tímabilsins.[6] Renault(2002–2006)Árið 2002 var Fernando Alonso varaökumaður Renault liðsins. Alonso ákvað það frekar heldur en að vera aðalökumaður liðs í Formúlu 1 í minna liði en Renault á þeim tíma. Alonso vonaðist til að keppa fyrir Renault liðið árið 2003.[7] Jenson Button sem var einn af tveimur aðalökumönnum Renault liðsins árið 2002 fór til Lucky Strike BAR Honda eftir tímabilið og Alonso fékk sæti Button hjá Renault. Jarno Trulli varð liðsfélagi Alonso fyrir tímabilið 2003. Alonso endaði í sjöunda sæti Ástralíu. Alonso var á ráspól í Malasíu og var þá yngsti ökumaður sögunar til að vera á ráspól í Formúlu 1 aðeins 21 árs ára gamall. Alonso hneppti síðan bronsið í keppninni sjálfri.[8] Í Brasilíu varð Alonso aftur þriðji og á San Marino/Imola varð hann sjötti. Á Spáni varð Alonso í öðru sæti og var þar með fyrsti Spánverjinn til að skora stig á heimavelli og var hann einnig fyrsti Spánverjinn til þess að lenda í öðru sæti allt frá árinu 1956 þegar Spánverjinn Alfonso de Portago varð annar á Silverstone.[9] Í næstu 7 keppnum tímabilsins náði Alonso ekki á verðlaunapall en endaði þrisvar sinnum í fjórða sæti í þeim keppnum. Síðar kom að Ungverjalandi og þar náði Alonso ráspól. Í keppninni sjálfri þann 24. ágúst árið 2003 vann Alonso sinn fyrsta sigur í Formúlu 1. Sigurinn var sögulegur þar sem hann var fyrsti Spánverjinn til þess að vinna sigur í Formúlu 1. Þá var einnig yngsti sigurvegari sögunnar það var ekki fyrr en árið 2008 að Sebastian Vettel bætti það met.[10] Alonso varð síðan áttundi á Ítalíu og kláraði ekki keppni í Bandaríkjunum og Japan. Alonso endaði tímabilið í sjötta sæti með 55 stig í heimsmeistaramótinu. Árið 2004 voru Jarno Trulli og Alonso aftur liðsfélagar í Renault. Alonso byrjaði árið á þriðja sæti í Ástralíu en átti lítinn séns í Ferrari ökumennina sem enduðu í fyrsta og öðru sæti.[11] Alonso fékk stig í næstu fjórum keppnum tímabilsins en kláraði ekki keppni í Mónakó. Alonso var á ráspól í franska kappakstrinum og endaði í keppnina í öðru sæti og var um 8 sekúndum á eftir Michael Schumacher. Schumacher vann á kænsku þar sem hann stoppaði fjórum sinnum á þjónustusvæðinu en Alonso aðeins þrisvar sinnum.[12] Alonso varð síðan í 10. sæti á Silverstone. Í Þýskalandi varð Alonso í þriðja sæti á eftir Michael Schumacher og Jenson Button. En stóra hluta þeirrar keppni þurfti Button að stýra með aðra hönd á stýri vegna þess að ólar á hjálmnum hans losnuðu og þurfti hann því að nota hina höndina til að halda hjálmnum á höfði sér en endaði þrátt fyrir það á undan Alonso.[13] Alonso varð aftur þriðja í Ungverjalandi og kláraði ekki á Ítalíu og Belgíu. Alonso var fjórði í Kína, fimmti í Japan og loks fjórði í Brasilíu. Alonso kláraði heimsmeistaramótið í fjórða sæti með 59 stig samtals. Árið 2005 var Fernando Alons áfram í Renault og var kominn með nýja liðsfélaga í Giancarlo Fisichella. Í Ástralíu var Alonso þrettándi á ráslínu en endaði keppnina í þriðja sæti. Liðsfélagi hans Fisichella var á ráspól og vann keppnina.[14] Alonso var ráspól hafi í Malasíu, leiddi keppnina frá fyrstu mínútu og sigraði nokkuð örugglega.[15] Í Bahrain var Alonso aftur á ráspól og vann keppnina.[16] Árangurinn hjá Alonso var farinn að skipta máli, það var uppselt á Imola kappaksturinn og viðhorf Spánverja gagnvart Formúlu 1 var að breytast. Formúlan hafði skipt Spánverjum litlu máli áður en Alonso fór að ná árangri.[17] Alonso var annar á ráslínu á eftir Kimi Räikkönen á Imola. Räikkönen þurfti að hætta keppni á níunda hring vegna gírskiptavandamála, Alonso vann keppnina og var það hans þriðji sigur í röð. Alonso náði að halda Michael Schumacher fyrir aftan sig sem var mjög nálægt honum síðustu tólf hringina.[18] Á Spáni var Alonso annar á ráslínu í sinni heimakeppni, það var stappað í stúkunni og það var mikið fagnað þegar Alonso fór framhjá stúkunni.[19] Alonso varð annar í keppninni. Í Mónakó endaði Alonso í 4. sæti. Í evrópska kappakstrinum á Nürburgring var Alonso sjötti á ráslínu en vann keppnina eftir að Kimi Räikkönen sem var í forystu á síðasta hringnum lenti í því óláni að framhjól brotnaði á bílnum hans á síðasta hringnum. Alonso var þá kominn með 59 stig í heimsmeistaramótinu og 22 stigum á undan næsta manni.[20] Í Kanada kláraði Alonso ekki keppnina og tók ekki þátt í Bandaríska kappakstrinum þar sem aðeins sex bílar tóku þátt vegna Michelin og Bridgestone dekkja fíaskóið.[21] Í Frakklandi vann Alonso sína fimmtu keppni á tímabilinu og varð hann í öðru sæti í Bretlandi. Í Þýska kappakstrinum vann Alonso sinn sjötta sigur á tímabilinu en var lengst af í öðru sæti á eftir Räikkönen sem þurfti að hætta keppni vegna vélarbilunar og þá var aldrei önnur spurning um að Alonso væri að fara að vinna keppnina.[22] Í Ungverjalandi endaði Alonso í 11. sæti og það var eina keppnin á tímabilinu sem Alonso endaði ekki í topp 4 fyrir utan sá Bandaríska. Alonso varð í 2. sæti þrjár keppnir í röð í Tyrklandi, Ítalíu og Belgíu. Í Brasilíu var Alonso á ráspól og var í góðri stöðu um að vera heimsmeistari. Í kappakstrinum komust bæði McLaren bílarnir fram úr Alonso og Alonso endaði þriðji. En þá var ljóst að Alonso var orðinn heimsmeistari ökumanna og var þar með yngsti heimsmeistari sögunnar í Formúlu 1 og þar með lauk sigurhrina Michael Schumacher sem var heimsmeistari fimm árin á undan.[23] Í Japan varð Alonso í þriðja sæti og vann síðan síðustu keppni tímabilsins í Kína. Alonso endaði heimsmeistaramótið með 133 stig og 21 stigi á undan Räikkönen sem var í öðru sæti. Árið 2006 voru Alonso og Fisichella aftur liðsfélagar hjá Renault. Áður en tímabilið var hafið var búið að staðfesta að Alonso myndi keyra fyrir McLaren árið 2007.[24] Alonso hóf titilvörnina frábærlega þegar hann vann fyrstu keppnina í Bahrain, Michael Schumacher var annar og Räikkönen þriðji.[25] Alonso var annar í Malasíu en sigraði í Ástralíu eftir að hafa verið þriðji á ráslínu. Á Imola var Alonso fimmti á ráslínu og var nálægt því að sigra kappaksturinn en náði ekki fram úr Michael Schumacher sem sigraði.[26] Alonso varð annar í evrópska kappakstrinum og heimavelli á Spáni var Alonso á ráspól. Í keppninni sótti Michael Schumacher hart á Alonso en án árangurs og Alonso fagnaði sigrii. Spánverjar voru sáttir með sigurinn, það voru 130 þúsund áhorfendur á keppninni og Alonso var fagnaður sem þjóðhetju.[27] Í Mónakó sigraði Alonso sína fjórðu keppni á tímabilinu. Þá vann Alonso á Silverstone með yfirburðum, var á ráspól og var einnig með hraðasta hring keppninar. Þá var þetta 200 keppni Renault í Formúlu 1.[28] Í Kanada vann Alonso aftur eftir spennandi keppni við Michael Schumacher og Räikkönen. Þá var Alonso búinn að vinna 5 keppnir í röð. Þá var þetta 100 sigur ökumanns á Michelin dekkjum.[29] Í Bandaríkjunum var Alonso fimmti, var annar í Frakklandi og fimmti í Þýska kappakstrinum. Í Ungverjalandi var Alonso í 14. sæti á ráslínu en það var mikill rigning á brautinni og Alonso var á Michelin dekkjum sem hentu betur í rigningu heldur en Bridgestone dekkin. Alonso náði að koma sér í fyrsta sæti en þegar það voru 19 hringir eftir bilaði bílinn og Alonso þurfti að hætta keppni og Jenson Button á McLaren sigraði sína fyrstu keppni í Formúlu 1.[30] Í Tyrkneska kappakstrinum varð Alonso annar og hann kláraði ekki keppnina í ítalska kappakstrinum. Í Kína varð Alonso annar á eftir Michael Schumacher og eftir keppnina voru þeir jafnir á stigum með 116 stig. Alonso sigraði í Japan meðan Schumacher datt út vegna vélarbilunar og var Alonso kominn með níu fingur á titillinn. Schumacher þurfti að vonast til þess að vinna í Brasilíu og að Alonso myndi ekki fá stig í keppninni til þess að verða heimsmeistari. Í Brasilíu var Alonso fjórði á ráslínu og Michael Schumacher var tíundi. Í keppninni endaði Alonso annar meðan Michael Schumacher endaði fjórði. Því var ljóst að Fernando Alonso var heimsmeistari annað árið í röð. Einnig var Renault heimsmeistari bílasmiðja.[31] Alonso endaði tímabilið með 134 stig og 13 stigum á undan Michael Schumacher. McLaren(2007)Árið 2007 fór Fernando Alonso til McLaren og liðsfélagi hans var nýliðinn Lewis Hamilton. Í fyrstu keppni tímabilsins í Ástralíu var Alonso annar á ráslínu. Alonso endaði líka annar í keppninni þar sem Kimi Raikkönen vann og Hamilton kom á óvart og endaði þriðji í sinni fyrstu keppni.[32] Í Malasíu var Alonso annar á ráslínu og Felipe Massa var fremstur. Alonso komst fram úr Massa í fyrstu beygju í keppninni. Alonso lét forystuna aldrei af hendi og varð 17 og hálfri sekúndu á undan Hamilton sem endaði annar. Fyrsti sigur Alonso fyrir McLaren var í höfn.[33] Alonso var fimmti í Bahrain og þriðji á Spáni í sínu heimalandi. Í Mónakó var Alonso á ráspól og sigraði keppnina annað árið í röð.[34] Í Kanada varð Alonso að sætta sig við sjöunda sætið. Í Bandaríkjunum var Alonso annar á ráslínu á eftir Hamilton. Alonso reyndi nokkrar tilraunir að komast fram úr Hamilton en það tókst ekki, Hamilton vann og Alonso varð annar.[35] Sjöundi endaði Alonso í Frakklandi og var annar á Silverstone. Í Evrópska kappakstrinum í Þýskalandi var Alonso annar á ráslínu á eftir Kimi Raikkönen. Mikill rigning var í keppninni og það þurfti að taka hálftíma hlé vegna hennar í miðri keppni. Felipe Massa komst fram úr Alonso í fyrstu beygju en þegar nokkrir hringir voru eftir snerist það við og Alonso komst fram úr Massa og sigraði keppnina og Massa varð annar. Aðeins 13 bílar kláruðu keppnina af 22 og 9 bílar duttu úr keppni og þar á meðal Raikkönen sem datt út vegna leka vandamála.[36] Í Ungverjalandi var Alonso fjórði og fékk bronsverðlaun í Tyrklandi. Alonso var rétt á undan Hamilton í tímatökunum á Monza og var á ráspól. Alonso vann á Monza með yfirburðum og Hamilton endaði annar og Raikkönen varð þriðji. Massa kláraði ekki vegna bilunar. Kappaksturshelgin hjá McLaren var fullkominn að mati Alonso.[37] Njósnamálið svokallaða hjá McLaren var í gangi þar sem talið var að McLaren væri að njósna um uppsetningu bíla keppinauta. Sögusagnir voru þær að njósnir hafi farið gegnum tölvupósta á milli Alonso og Pedro de la Rosa.[38] Þann 13. september kom niðurstaða í málið þar sem McLaren fékk háa sekt upp á um 100 milljóna dollara sem var hæsta sekt sögunnar í akstursíþróttum á þeim tíma. McLaren var dæmt úr leik í heimsmeistarakeppni bílasmiðja og endaði þar með 0 stig. Úrskurðurinn hafði ekki áhrif á Alonso og Hamilton og ekkert stig voru dreginn af þeim í ökumanna keppninni.[39] Í Belgíu varð Alonso í þriðja sæti á eftir báðum Ferrari bílunum. Í Japan var Alonso annar á ráslínu en mikil rigning var í keppninni og Alonso klessti á öryggisvegg á 42. hring og datt út. Hamilton vann, Heikki Kovalainen var annar og Räikkönen þriðji. Aðeins tvær keppnir voru eftir og Hamilton var kominn í góða stöðu, 12 stigum á undan Alonso og 17 stigum á undan Räikkönen.[40] Í Kína var Alonso fjórði á ráslínu, Hamilton var á ráspól en datt úr keppni eftir að hann festist í malargryfju, Räikkönen vann keppnina og Alonso varð annar.[41] Þeir þrír áttu því allir möguleikar að vera heimsmeistari í lokakeppninni í Brasilíu. Alonso var aðeins fjórði á ráslínu í Brasilíu. Hamilton var annar á ráslínu en Räikkönen þriðji. Bæði Räikkönen og Alonso komust fram úr Hamilton á fyrstu hringjunum. Räikkönen komst fram úr liðsfélaga sínum Massa í keppninni og vann, Massa varð annar og Alonso varð þriðji. Hamilton missti vélarafl í keppninni og var um tíma í átjándi en endaði sjöundi. Räikkönen varð heimsmeistari á einu stigi með 110 stig en bæði Alonso og Hamilton enduðu með 109 stig. Alonso endaði þriðji í heimsmeistaramótinu en Hamilton í öðru vegna þess að Hamilton lenti oftar í öðru sæti heldur en Alonso.[42]
Tilvísanir
Heimildir
|